Hvenær er nóg nóg ?? Uppeldi.

Ég er búin að vera að spá í að skrifa þennan pistil síðan í gær. Ég veit að það verður létt að misskilja hann, en það verður bara að vera undir hverjum og einum komið. Ég ætta að skrifa hann fyrir mig og verð þakklát fyrir að heyra ykkar álit á þessum pælingum, (en vill helst biðja fólk sem ekki hefur reynslu eða skilning af því hvernig það er að eiga börn með einhverfu eða asperger að halda sínum predikunum fyrir sig)

Þannig er mál með vexti að ég er búin að vera að hugsa mikið um hvenær nóg er nóg, þegar það kemur að því að ala upp börnin okkar. Hvenær á maður að hætta. Barnasérfræðingurinn okkar er búin að segja mér í mörg ár að ég verði að hætta að nota alla mína orku á að kenna krökkunum mínum aðra hegðun og sætta mig við hvernig þau eru áður en ég gengi endanlega frá sjálfri mér. Ég hef rifist við hann fullum hálsi, að þann dag sem ég hætti því sé dagurinn sem ég gæfist upp á þeim. (vill taka það fram að hann er frábær læknir og með þessu var hann meira að sýna áhyggjur og umhyggju fyrir mér en af þeim) En svo er búið að vera að brjótast í mér, hversu lengi á ég að halda þessu áfram. Þeir sem eiga "venjuleg" börn held ég að taki ekki yfirvegaða ákvörðun um að hætta að ala upp börnin sín, það er bara eitthvað sem gerist af sjálfum sér þegar þau eldast og vonandi sína að þau séu að verða fullorðinn. Nú er það svo að mín börn eru 15 og 18 ára. Mikið erum við búin að ná að kenna þeim og ala þau upp á annan hátt en tíðkast á "venjulegu" heimili. Vinnan er búin að vera alveg gífurleg og árangurinn mjög svo ásættanlegur að mörgu leiti. En nú er svo komið að þeim tímapunkti hjá mér að ég held að það séu nú samt hlutir sem ég get ekki breytt, eða alið af þeim. Ég hef alltaf verið mjög upptekin af að þau séu einstaklingar og það sem við höfum þurft að kenna þeim og ala þau upp til sé ekki einhverjar óraunhæfar óskir mínar og þrár, heldur ákvörðun byggð á þeirra getu og persónuleika. Þetta finnst mér okkur hafa tekist vel. Mér finnst ekki einu sinni örla á Sigrúnu í þeirra draumum og vonum. Og svoleiðis vill ég hafa það. Þetta eiga að vera þeirra draumar og vonir og þeirra líf. Ég ætla ekki að hætta að vera mamma þeirra, en ég held samt að það sé tími til komin að ég sætti mig við að það eru líka takmörk fyrir því hvað mér sé ætlað að breyta og hversu mikilli orku og árum ég eigi að nota í að breyta einhverju sem trúlega breytist ekki, vegna þess að það er partur af þeirra persónuleika, eða þeirra veikleika.

Ég veit ekki hvort þið skiljið hvað ég er að meina, en af einhverjum orsökum hef ég ekki haft frið fyrir þeirri hugmynd að skella þessu á bloggið og ath viðbrögðin. Nú er ég ekki að biðja um ykkar leyfi eða blessun á þessari ákvörðun, en gaman væri að heyra frá ykkur sem eruð í svipaðri aðstöðu eða bara skiljið hvað ég er að tala um.

Kær kveðja Sigrún.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolla

Einungis þú þekkir börnin þín nógu vel til að taka þessa ákvörðun. Bara þú veist hvað er best fyrir börnin þín

Kolla, 11.10.2007 kl. 18:35

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég veit nákvæmlega um hvað þú ert að tala...
Áður en ég svara þessari spurningu þinni ætla ég að hugsa smá... I will be back.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.10.2007 kl. 18:38

3 Smámynd: Kej

Æ Sigrún mín það er svo margt sem mig langar að segja við þessari færslu að ég eiginlega kem því ekki frá mér. Ég held ég verð að fylgja fordæmi Gunnars Helga og fá að koma aftur síðar þegar ég hef aðeins náð að pæla þetta. 

En þetta eru rosalega eðlilegar vangaveltur hjá þér og eiga fullkomlega rétt á sér.  

Kej, 11.10.2007 kl. 21:05

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég lít á þetta þannig að synir þínir, þótt fatlaðir séu, eigi að eldast og fara að heiman eins og önnur börn. Þó svo að þeir fari ekki í eitthvað annað land að sinna einhverjum störfum eða gerist geimfarar, þá er jafn nauðsynlegt að halda þessu ferli eins og hjá öllum öðrum. Ég lít á það þannig að maður kennir ungunum sínum eins vel og maður getur og svo á ákveðnum aldri ýtir maður þeim út úr hreiðrinu og þeir taka flugið með eða án aðstoðar. Þínir synir fara á annað heimili og þú verður alltaf mamma þeirra, en nú er komið að því að þú lifir þínu lífi öðruvísi, það gerir þig ekki að slæmri mömmu, ekki frekar en mig sem er fegin að ungarnir eru flognir en nýt samvista við þau þegar við getum. Vona að ég sé kekki að segja neitt sem særir þig. En svona finnst mér þetta eiga að vera og sé eðlilegt.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2007 kl. 21:45

5 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Ég þakka kommentin sem komin eru og bíð spennt eftir að heyra meira frá Gunnari og Kristni. Ég vil líka taka það fram að auðvita eru hvert og eitt mál einstakt og öðruvísi og verður að taka mið af því. Nú er ég búin að lesa aftur yfir færsluna sem hreinlega hoppaði út úr puttunum á mér á lyklaborðið og ég þorði ekki að lesa hana yfir, því þá færi ég að breyta henni og það vildi ég ekki.

Knús og klemm og takk fyrir að vera vinir mínir

P.s Ásta, takk ég vill bara leiðrétta þann litla misskilning, ég á strák og stelpu Og nei það særði mig sko ekkert þessi færsla, bara gott að heyra frá fleirum. Takk

Sigrún Friðriksdóttir, 11.10.2007 kl. 21:58

6 Smámynd: Margrét M

Sigrún ég tek svolítið undir með Kollu . Einugis þú þekkir þau nógu vel til þess að taka slíka ákvörðun .. en ég get eiginlega lofað þér þó svo að þú ákveðir eitthvað varðandi uppeldið að þá heldurðu áfram að vera besta mamma sem þau eiga og þú heldur áfram að skipta þér af..

Margrét M, 12.10.2007 kl. 09:15

7 Smámynd: Aðalheiður Friðriksd. Jensen

Ég veit allveg hvað þetta er búið að vera erfit oft á tíðum og skil þig mjög vel , þar sem ég á kanski ekki við svo ósvipað vandamál að stríða stundum , veit þú veist hvað ég meina . En hvað sem þið ákveðið að gera þá veit ég að það kemur til mað að vera krökonum til góða og ykkur líka . Hvað svo sem þið ákveðið þá er ég alltaf hérna og stið þig í öllu sem ég get , elska þig meyra en ég get sagt .

Knús og klemm elsku duglea systir mín

Aðalheiður Friðriksd. Jensen, 12.10.2007 kl. 10:10

8 Smámynd: Halla Rut

Það er bara svo mikið sem hægt er að gera og ég held að þú sért búin að gera allt sem í þínu valdi stendur. Mér er sagt og ég hef séð á börnum með þessa fötlun sem þín börn hafa, að nú sé einmitt að koma besti tíminn þ.e.a.s. eftir 18 ára aldur.  Aldurinn sé erfiðastur oft  á milli 4 og 6 ára og svo aftur 13 til 18 ára. Ég hef heyrt foreldra segja að eftir 18 ára þá færist yfir kyrrð og ró vona að það verði svo hjá þér. Það er bara svo erfitt að koma með álit á máli sem ég þekki svo lítið til þótt ég þekki einhverfu vel.  Það væri gaman að heyra í þér eftir ár með þennan eldri og heyra hvort það sé eitthvað til í þessu hjá mér.

Nú eru þeir að verða fullorðnir og maður verður sem foreldri að leyfa börnum sínum að mynda eigin persónu í friði. Maður verður að geta sleppt hendinni þó að ég viti að það sé sérstaklega erfitt þegar um fötluð börn er að ræða. Og svo er nú bara fyndið að ég sé að segja þetta. Á einn sem er að verða 15 ára og ætti kannski taka mín eigin skrif til mín. En alltaf auðvelt að ráðleggja öðrum, er það ekki.

Gangi þér vel og mundu að þú átt líka rétt á hvíld og persónulegu lífi. 

Halla Rut , 12.10.2007 kl. 12:42

9 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

kæra sigrún, takk fyrir þessa færslu, ég á ekki börn með þessa fötlun, en ég var með tveim öðrum til að opna myndlista skóla fyrir fólk með sérþarfir. sjá www.kunstskolenrammen.dk

núna er skólinn á fimmta ári og verður stærro og stærri 

því miður höfum við ekki haft tíma til að setja nýtt efni í tvö ár, en það er bara tákn um hversu mikið það er a' gera og það er gott.

nemendurnir eru frá aldrinum 20 og upp. ég hef alveg dásamlega reynslu sem þau hafa gefið mér og einnig aðstendendur þeirra.

ég get ímyndað mér að það sé erfitt að sleppa ábyrgðinni, og bara að njóta þess að vera með þeim , þar sem þau eru án þess að vera sá sem ræður og stjórnar, en bara sá sem nýtur. ég finn það á þeim foreldrum sem ég er í samvinnu með að það er mjög erfitt er sleppa... 

eins og ég sagði í byrjun er það að vera kennari ekkert í samlíkingu við að vera foreldri með allar þær tilfinningar sem því fylgja.

vonandi finnið þið réttu leiðinna öll í sameiningu kæra sigrún

AlheimsLjós til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.10.2007 kl. 21:38

10 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Mér finnst að ég skilji þig þó ég eigi ekki einhverfft barn eða barn með Asperger einkenni. Mér finnst pælingar þínar mjög góðar og lögmætar. Ég átti son í efiðleikum sem kannski eru gengnir yfir. Ég hætti ekki að vera mamma hans og  stóð með  hinum eins og ég gat. Geri enn. En hann er fullorðinn núna. Ég  held þú hafir staðið þig og þú munir allfaf gera það. Fyrirgefðu mínar pælingar um það sem ég kannski ekki skil. En mér finnst þú hetja.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 12.10.2007 kl. 22:48

11 Smámynd: Kej

Þeir eru orðnir nokkuð margir sérfræðingarnir sem hafa klappað okkur góðlega á axlir og sagt að þetta og hitt sé óraunhæft og ekki þýði að reyna að kenna litla kallinum okkar það.  Ég verð að viðurkenna með sjálfan mig að oft hef ég verið sammála og ekki séð tilgang í að eyða kröftum okkar í það sem í fyrstu virtist að berja höfði við stein. En þar sem ég á kjarnorkusprengju  fyrir konu þá hefur það sama ekki gilt um hana.  Ég hef varla tölu á því hversu oft hún hefur náð að afsanna hina og þessa snillinga með krafti, elju og óbilandi bjartsýni að vopni. Ég þykist vita að  þú hafir fetað svipaðar brautir með þína krakka. 

Að því sögðu er mér líka fullljóst að öll þessi eljusemi hefur tekið gríðarmikinn toll af minni duglegu konu. Allir hafa sitt þanþol  og þó maður sé alveg langduglegastur og ákveðnastur í að láta hlutina ganga þá kemur samt bara að því að líkami og sál láta eigandann vita að nú sé komið nóg.  Það höfum við hjónin bæði reynt og oftar en einu sinni.  Þýðir það að við eigum að leggja minna á okkur og ekki eyða svona mikilli orku í börnin okkar ? Ekki gott að svara því.  

Við hjónin höfum þurft að gerbreyta viðhorfum og væntingum til lífsins og mín skoðun er að einmitt það að geta aðlagað væntingar sínar að breyttum aðstæðum sé það sem skeri úr um hvort maður hreinlega hafi það af án þess að annaðhvort ganga af göflunum eða einfaldlega að labba í burtu frá verkefninu.  

Ef einhver gæti fundið og sýnt mér línuna á milli þess að gera allt sem í mínu mannlega eðli stendur fyrir börnin mín og þess að ganga af mér dauðum þá væri það frekar vel þegið. Þá gæti ég haldið mig svona rétt innan við miðju og  verið með hreina samvisku í þokkabót. En þetta er víst ekki svo auðvelt.  

Ég held að þrátt fyrir góðan vilja og mikinn dug þá hafi þessi sérfræðingur sem þú vitnar í eitthvað til síns máls.  "Setjið súrefnisgrímuna fyrst á yður" og allt það. Ef þú gengur frá sjálfri þér hvaða afleiðingar hefur það á restina af fjölskyldunni ?  Held ég þekki þig nógu vel til vita að þú munt aldrei vanrækja börnin þín eða gefa þeim bara 90% ást og umhyggju. Og víst við erum farin að tala um prósentur þá er rétt að hafa í huga að skilnaðarprósenta foreldra einhverfra barna er víst um 70-80%

Vona að þetta meiki eitthvað sens og biðst afsökunar á löngu commenti.



Kej, 13.10.2007 kl. 00:25

12 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég vildi óska þess að ég hefði eitthvað gáfulegt að segja. Tek undir með fólki hér að þetta sé algjörlega þitt að ákveða. Þú veist best. Guttinn minn er svo lítill ennþá að ég get alls ekki sett mig í þín spor. Aftur á móti tek ég ofan fyrir hvaða foreldri sem finnur í sér kjarkinn til að klippa á naflastrenginn. Ég held við höfum áhyggjur af börnunum okkar allt of lengi, ekki okkur sjálfum til góðs. Og nú tala ég almennt. Hvað sem þú ákveður að gera, ekki láta neinn segja þér að eitthvað annað sé betra. Fylgdu sannfæringu þinni. Knús til þín

Jóna Á. Gísladóttir, 13.10.2007 kl. 01:50

13 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Ég vill byrja á að þakka ykkur öllum fyrir færslurnar hér að ofan. Hver og ein af þeim hafði skilaboð til mín, og þakka ég fyrir það. Sérstaklega var mikið sem hreyfði við mér frá Kristni, og kemur það kannski ekki á óvar þar sem við þekkjum til hvors annars og var það virkileg umhugsunarsprauta sem ég fékk þar Takk Kristinn. Nú er það svo að mér finnst ég vera búin að ná allflestum takmörkum ég hef sett mér varðandi son minn, og ástæðan fyrir þessari færslu kannski meira hugsanir um uppeldið og hjálpina þegar það kemur að dóttur minni. I hennar málum er ég búin að vera í stærstu slagsmálunum við kerfið undanfarinn ár og er ennþá á fullu með að fá nánari greiningu sem kemur til með að hjálpa henni að fá þá hjálp sem hún þarf þegar hún fer í framhaldsskólann. En svo er ég búin að bakka svolítið út og reyna að horfa (pínu) hlutlaust á þetta og held að ég standi svolítið á tímapunkti núna þar sem ég þarf að slaka svolítið á og sjá hvað skeður, ekki endilega fyrir mig ( þó ég hafi nú gott af því) en ekki síður til að okkar samband fái kannski smá frið til að þróast eins og móður og dóttur. Ekki kennari og nemandi. Hún er líka mitt í unglingsárunum með öllu því sem því fylgir og ég vill ekki eyðileggja okkar bönd sem eru mjög sterk með eilífum umræðum um af hverju við gerum og eða segjum ekki svona og svona. Ég reikna með að vera að kenna þeim og ala þau upp alla ævi, svo að segja, akkúrat eins og að ég ætla að vera mamma þeirra alla ævi og meira til. En ég stend sjálf á svolitlum tímamótum og getur vel verið að það hafi árhrif á þessar tilfinningar og hugsanir. En eins og ég sagði við manninn minn elskulegan, þá hef ég nú þann rétt að skipta algjörlega um skoðun á nóinu og skella í yfirgírinn ef því er að skipta, og það getur þess vegna gerst á morgun En það sem mig langar svolítið að hætta með er að vera með eitthvað sérstak takmark sem ég ætla að vinna með með þau. Reyna að taka hlutunum eins og þeir koma fyrir og njóta þeirra eins og þau eru í dag, en eins og þú komst inn á Kristinn svo réttilega þá er þetta með samviskubitið yfir að vera ekki að gera nóg sem er alltaf að naga mann í hælana. Ég ætla frá og með núna og með virkni um óákveðinn langan tíma að ákveða að slaka aðeins á í kennsluefnunum, einbeita mér að venjulegu mömmunni í mér og kannski líka pínulítið persónunni mér. Enn og aftur vill ég þakka ykkur öllum fyrir umræðurnar, þær hafa reynst mér vel

Sigrún Friðriksdóttir, 13.10.2007 kl. 14:53

14 Smámynd: Agný

Kæra Sigrún ég þekki það allavega að eiga son með asperger syndrome. Hann er kominn yfir tvítugt, fæddur "84. Það er allavega eitt sem breyttist mikið þegar hann fór í fjölbraut en það var líðan hans sjálfs. Hann þoldi aldrei ysinn og skarkalann í grunnskólanum, en það virðist nú ansi oft vanta hljóðkútinn á sum börn.. Í Fjölbraut er ekki eins hávaði og þar leið honum mikið betur bara vel, en hann vildi ekki fara á böll eða skemmtanir nema rétt fyrst, nennti ekki þessu fyllerísröfli í rútunni heim eftir böllinn... Hann vildi heldur ekki fara á diskotek þegar hann var í unglingadeild, fékk rosalegan höfuðverk.... Þannig má kanski segja að sumt breytist til batnaðar með árunum en annað ekki.... en samt held ég að þetta sé mjög einstaklingsbundið...Ég  held að það skifti engu máli hvort börnin okkar eru haldin fötlun / sjúkdóm eður ei ..þau verða víst alltaf "strákar" og "stelpur" í foreldranna huga sama þó maður sé kominn um /yfir fimmtugt....

Svo virðist mér sem að börnin manns vaxi æ seinna úr grasi en var þegar ég var að alast upp..maður var sko skriðinn úr hreiðrinu um 16 ára og flestir af minni kynslóð.....Núna virðist mér að allir séu í heimahúsum fram að þrítugu....jafnvel lengur ef að viðkomandi er alltaf í skóla... Held að þetta sé ekki góð þróun....En það er kanski ekkert athugavert við það að börnin manns leggi líka í búkkið á heimilinu þegar þau eru orðin sjálfráða þó svo að þau séu í skóla þá eru þau líka að afla tekna yfir x tíma ársins ..Allt í lagi að þau læri það að allt kostar jú eitthvað... En ég neita því ekki að ég hef áhyggjur af mínum elsta svona annað slagið þegar ég hugsa til þess hvað verður þegar ég hef geispað golunni .....eða við foreldrarnir..... En ég er allavega þakklát fyrir það sem hann hefur kennt mér...þessir einstaklingar kenna manni ekki síður en við þeim. Gangi þér vel Sigrun

Agný, 16.10.2007 kl. 04:18

15 Smámynd: Solla Guðjóns

Elskan mín ég er svo hjartanlega sammála Kristni.Þanþolið er aðalmálið.Ég, þú og allir aðrir getum gengið svo nærri okkur að við hreynlega verðum einhvern tíman búin á því og þá höfum við ekki krafta né getu til að annast þessi mál sem skyldi.Mér dettur í hug að þú sért á ákveðnum tímapunkti.

Það er ekki hægt að segja þú átt að....ég veit að það er hægt að endurhlaða sig aftur og aftur en ekki endalaust.Kannski er komin tíminn sem þú ættir að leifa ástini og umhyggjunni fyrir börnunum þínum að dafna á öðrum vettvangi.

En Sigrún mín hvað sem þú gerir þá ætla ég að skipa þér að KASTA SAMVISKUBITINU ÚT.ÞAÐ Á ENGAN RÉTT Á SÉR NÉ VIÐ NEIN RÖK AÐ STIÐJAST. VERTU STOLT AF ÞVÍ SEM ÞÚ HEFUR ÞEGAR GERT.

Ég ber nikla virðingu fyrir þér og fólkinu sem hefur tjáð sig hér.

Bestu kveðjur Solla.

Solla Guðjóns, 16.10.2007 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband